Afmælistónleikar SÁB 2008

26.11.2008

Húsfyllir á afmælistónleikum Skólahljómsveitar Árbæjar og Breiðholts

Fjölmenni var á 40 ára afmælistónleikum Skólahljómsveitar Árbæjar og Breiðholts 23. nóvember, þar sem þrjár sveitir fluttu tónlist af ýmsu tagi. Auk þess flutti slagverkssveit hljómsveitarinnar frumsamið lag og hápunktur tónleikanna var frumflutningur tónverksins Eitthvað fyrir alla, eftir Lárus H. Grímsson. Einleikari í verkinu var Lilja Valdimarsdóttir. Stjórnandi hljómsveitarinnar er Edward Frederiksen.

Afmælistónleikarnir voru haldnir í Fella- og Hólakirkju að viðstöddum foreldrum og öðrum aðstandendum, fyrrum kennurum og nemendum og öðrum góðum gestum.

Skólahljómsveit Árbæjar og Breiðholts var stofnuð 1968 en þá um vorið hélt hún sína fyrstu tónleika. Upphaflega hét hún Skólahljómsveit Árbæjar, því þar var hún stofnuð og seinna bættist hið nýja Breiðholtshverfi við. Framfarafélag Árbæjar og Seláshverfa átti frumkvæðið að stofnun hljómsveitarinnar og fyrstu árin fór starfsemin fram í húsi félagsins (skúr sem var rifinn fyrir löngu), en flutti svo í Breiðholtsskóla.

Fyrstu 3 árin voru 12 börn í sveitinni öll á málmblásturshljóðfæri en smám saman fjölgaði börnunum ásamt því að tréblásturs og slagverkshljóðfæri bættust við. Tvær skólahljómsveitir voru þá fyrir í Reykjavík, en í dag eru þær fjórar.

Fyrsti stjórnandi hljómsveitarinnar og eini kennari fyrstu árin, var Ólafur L. Kristjánsson. Árin 1995-2002 stjórnaði Lilja Valdimars-dóttir skólahljómsveitinni en hún byrjaði sem nemandi, í fyrsta hópnum hjá Ólafi.

Á árunum 2002-2005 stjórnuðu Lilja Valdimarsdóttir og Knútur Birgisson hljómsveitinni en Edward Frederiksen tók við stjórn Skólahljómsveitar Árbæjar og Breiðholts haustið 2005.

Edward Frederiksen, núverandi stjórnandi hljómsveitarinnar er básúnuleikari. Hann nam og starfaði í Svíþjóð sem atvinnu-básúnuleikari í áratug og flutti heim 1982. Í dag spilar hann með Stórsveit Reykjavíkur og hefur einnig leikið með Sinfóníuhljómsveit Íslands, í Íslensku óperunni og í leikhúsunum í Reykjavík. Þá starfaði hann um árabil sem dagskrárgerðamaður við Ríkisútvarpið.

http://eldri.reykjavik.is/desktopdefault.aspx/tabid-3801/2281_read-13130/6316_view-5015/2281_page-59/